Home / Menntamidja / Vísbendingar um komandi framtíð til sýnis í V&A safninu í London

Vísbendingar um komandi framtíð til sýnis í V&A safninu í London

image_pdfimage_print

Í Victoria & Albert lista- og hönnunarsafninu í London opnaði nýlega sýning undir yfirskriftinni, Framtíðin hefst hér (The Future Starts Here). Á sýningunni eru ýmsir munir og verkefni kynnt sem eiga að gefa vísbendingar um hvers er að vænta í framtíðinni. Það eru m.a. annars listaverk sem eru í raun skáldverk um mögulega framtíð sem eru ætluð að örva ímyndunaraflið. En einnig eru þar til sýnis hugmyndir og frummyndir verkfræðinga og iðnhönnuða sem eru ætluð að hjálpa okkur að takast á við tilteknar áskoranir og bæta líf sem flestra.

Vélmennið BRETT tekur á móti gestum á sýningunni Framtíðin hefst hér og sýnir hvernig nútíma vélmenni geta lært að gera einfalda hluti fyrir okkur.

Markmið sýningarinnar er að leiða gesti áfram inn í mögulegar framtíðir með því að sýna hvað er raunverulega hægt um leið og ímyndunaraflið er virkjað til að víkka út möguleikana. Menntun er með fyrirferðamestu verkefnum sem nútímasamfélög taka sér fyrir hendur og hér því mjög áhugavert innlegg í umræðu um framtíð menntunar þó svo að sýningin snúist ekki beint um það efni.

Listakonan Jalila Essaidi ímyndar sér að hægt verði að virkja tré til að nota sem loftnet fyrir þráðlaust net.

Það er oft sagt að enginn viti hvað framtíðin beri í skauti sér. En í raun má segja að við vitum oft töluvert meira um framtíðina en margir halda. Vísbendingar um hvers er að vænta í framtíðinni eru allt í kringum okkur því það eru ákvarðanir okkar og athafnir í dag sem móta framtíðina. Vísbendingarnar eru af ýmsu tagi og birtast á mörgum stöðum:

  • Vísindafólk og verkfræðingar leita stöðugt skýringa og lausna á margvíslegum áskorunum.
  • Listafólk skapar nýja sýn á umhverfi okkar og veruleikann sem við búum í.
  • Stjórnvöld og stjórnendur stýra samfélögum okkar inn á brautir sem ætlaðar eru að tryggja okkur farsæld.
  • Almenningur gerir sér væntingar um hvers konar líf það vill fyrir sig og afkomendur sína.

… svo fátt eitt sé nefnt.

Oft koma upp deilur því ekki sjá allir fyrir sér sömu framtíð. Hvað verður úr er ávallt útkoma flókinna, og oft óljósra, samningsferla þar sem togast á ólíkar hugmyndir um hvað er þarft, æskilegt eða réttlátt. Það gerir það að verkum að fyrir okkur flest einkennist framtíðin fyrst og fremst af óvissu.

Bento Labs er að þróa einfaldan og ódýran búnað til að greina erfðaefni hvar sem er, hvenær sem er og á einfaldan hátt. Það má vel hugsa sér að grunnskólanemendur munu ekki aðeins kryfja smádýr í líffræðitíma heldur líka gera erfðagreiningar.

Þrátt fyrir alla þessa óvissu má vel greina strauma og mótunaröfl ef vitað er að hverju þarf að leita. Sýningin Framtíðin hefst hér er einmitt ætluð að draga úr óvissunni sem fylgir framtíðinni með því að sýna hvaða möguleikar eru fyrir hendi og hvert þeir geta leitt okkur. Endanlegt markmið hlýtur að vera að virkja almenning í samræðu um framtíð sína og okkar allra svo hann verði meðvitaðri um eigið hlutverk í mótun framtíðarinnar.

Þau öfl sem munu móta samfélög okkar eru þau sömu og móta framtíð menntunar og er því sýning sem þessi, og nánast allt sem varpar ljósi á möguleika framtíðarinnar, góður efniviður í samræður sem þurfa að fara fram á vettvangi menntunar.

Skrifaðu athugasemd