Home / Tækniþróun / Snjallsími framtíðarinnar – sérhannaður fyrir skóla?

Snjallsími framtíðarinnar – sérhannaður fyrir skóla?

image_pdfimage_print
Svona gæti einingasími framtíðarinnar litið út.

Svona gæti einingasími framtíðarinnar litið út.

Ef þú hefðir tækifæri til að smíða þinn eigin snjallsíma frá grunni, hvað myndirðu setja í hann? Ýmislegt bendir til að við fáum einmitt að gera þetta í nálægri framtíð með tilkomu einingasíma. Nú þegar er einn einingasími kominn á markað sem býður upp á takmarkað úrval eininga. Það er LG G5 síminn sem kom á markað fyrr á þessu ári. En ef hugmyndir tæknigúrúa innan Google og víðar ná fram að ganga verður bráðum hægt að fá snjallsíma sem er sérsniðinn að þörgum hvers notanda. Það sem meira er, hver notandi mun geta breytt eiginleikum snjallsímans eftir þörfum með því einfaldlega að smella nýrri einingu í þar til gerða rauf. Hvaða áhrif mun þessi tækninýjung hafa á notkun tækni í námi og kennslu?

Eitt helsta undur nútíma snjallsíma er hvað verkfræðingum tekst að troða mikilli tækni inn í svo litla skel. Snjallsímar í dag eru ekki bara símar, þeir eru heldur ekki bara litlar tölvur sem hægt er að hringja úr. Í raun má segja að snjallsímar hafi töluvert meiri af tækni inn í sér en hefðbundin fartölva. Auk örgjörva, minnis og skjás hafa þeir töluvert af skynjurum, svo sem GPS staðsetningartækni, myndavél (mynd- og ljósskynjari), hljóðnemi (hljóðskynjari), hreyfiskynjari, áttaviti, hallamælir og margt fleira. Nýjustu símar hafa svo einnig fingrafaraskynjara og loftþrýstimæli (sem er notaður til að reikna nákvæmari staðsetningu).

Til þessa höfum við haft lítið val um hvað af öllum þessum tæknieiningum og skynjurum eru til staðar í snjallsímunum sem við kaupum. Með tilkomu einingasíma verða miklar breytingar þar á. Þetta hefur ýmis áhrif á möguleika snjallsíma í námi og kennslu. T.d.:

  • Kennarar hafa getað gengið að því vísu að nemendur séu með nokkurn veginn svipaða snjallsíma með svipaða notkunarmöguleika. Þetta kann að breytast ef kaupendur velja þær einingar sem fylgja símanum.
  • Snjallsímar hafa verið allt-eða-ekkert tæki. Ef nemandi er með snjallsíma í skóla þá er hann með alla þá tæknimöguleika sem hann býður upp á, þ.m.t. aðgengi að þráðlausu neti, aðgengi að neti um GSM samband og fleira. Kennarar sem vilja nota snjallsíma í tímum hafa þurft að sætta sig við þetta og þar með að nemendur geti verið að nota símana í allt annað en til er ætlast. Með einingasímum verður jafnvel hægt að láta nemendur fá bara þær einingar sem ætlast er til að þeir noti í náminu og skila öðrum í geymslu á meðan.
  • Með einingasímum má ætlast til að ör aukning verði á framleiðslu sérhannaðra eininga sem ætlaðar eru til nota við tilteknar aðstæður. Þá má hugsa sér að til verði sérstakar námseiningar til nota í skólaumhverfi og jafnvel að sérstakar einingar verði framleiddar til nota í einstökum námsgreinum. Kennarar gætu þá úthlutað þessum einingum til nemenda og þannig haft töluvert meiri stjórn á notkun tækninnar í skólaumhverfinu en nú er.

Á þessum tímamótum, þegar ný tækni sem mun fyrirsjáanlega breyta mjög tækniumhverfi í skólum og víðar, er vert fyrir þá sem starfa að skólamálum að hugsa um hvað þeir myndu vilja fá út úr þessari tæknibreytingu.

Ef þú gætir hannað einingar fyrir einingasíma til að nota sérstaklega fyrir nám og kennslu, hvað myndirðu gera? (Hér fyrir neðan geta þeir sem vilja skráð inn sínar hugmyndir og spjallað um hugmyndir annarra.)

Skrifaðu athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.