Home / Menntamidja / Raðreitatækni (blockchain) í námi og skólastarfi

Raðreitatækni (blockchain) í námi og skólastarfi

image_pdfimage_print

Það var áhugavert viðtal við Krist­inn Stein­ar Krist­ins­son, sér­fræðing­ hjá Nýherja, á mbl.is nýlega um s.k. blockchain tækni, sem hefur verið kölluð á íslensku raðreita­tækni eða einfaldlega keðjan. Raðreitnatæknin er undirstaða rafrænna gjaldmiðla eins og Bitcoin og dularfulli íslenski tilraunagjaldmiðillinn Auroracoin. Raðreitatæknin tryggir öryggi og rekjanleika gagna um viðskipti með rafrænum gjaldmiðlum með því að gera öll gögn um tiltekinn viðskipti aðgengileg öllum sem þurfa. Þannig er opinleiki, rekjanleiki og dulkóðun notuð til að skapa traust innan kerfisins. Engin kemst upp með að svindla ef allt er uppi á borði.

(Fyrir þá sem vilja fræðast meira um raðreitatækni er hér gagnlegur vefur Open University. Myndefni sem fylgir greininni er fengið að láni af þeim vef.)

Í hugum flestra sem til þekkja er raðreitatækni tengd viðskiptum, og þá sérstaklega viðskiptum með rafrænum gjaldmiðlum. Hins vegar er líklegt að hana mætti nýta í hvers kyns samskiptum sem byggjast á gagnafærslum og þar sem rekjanleiki og traust skipta máli. Þá má vel hugsa sér að nýta mætti tæknina í tengslum við náms- eða starfsferilsgögn, lánastarfsemi hverskonar (t.d. bókasöfn) og jafnvel prófgögn eða verkefnaskil nemenda.

Helsti kostur raðreitatækni er að hún gerir milliliði í hvers kyns aðgerðum milli tveggja eða fleiri aðila óþarfa. Til þessa hafa bankar gjarnan verið nýttir sem milliliðir í viðskiptum til að skapa traust og tryggja áreiðanleika. Ókosturinn við það er að varðveisla gagna sem tengjast viðskiptum er í höndum eins aðila. Milliliðurinn stýrir því hver hefur aðgang að gögnunum og getur nýtt sér það vald á ýmsan hátt sem er ekki endilega hagur þeirra sem skipta við hann, til dæmis með því að hækka kostnað vegna viðskipta með þjónustugjöldum og jafnvel að nýta gögnin sem söluvöru til aðila sem eru algjörlega ótengdir viðskiptunum. Þegar gögn sem þessi eru í vörlsu eins aðila er líka alltaf hætta á að gögnin skemmist eða eyðist, hvort sem er vegna viljaverka eða slysa. Raðreitatækni eyðir allri svona óvissu með því að varðveita gögn í skýinu þar sem þau eru dreifð og afrituð á fjölda netpunkta. Í vissum skilningi má því segja að gögnin eru alls staðar vegna þess að þau eru hvergi. Það er ekki hægt að takmarka aðgengi að gögnunum né að skemma eða eyða þeim vegna þess að það er engin einn miðpunktur þar sem hægt er að eiga við þau.

Yfirlit yfir verklag með raðreitatækni.

Það eru þessi milliliðalausu samskipti sem vekja áhuga flestra, og þá ekki bara í tengslum við viðskipti. Margir eru farnir að sjá töluvert fleiri möguleika fyrir raðreitatæknina og er hún þess vegna talin jafnbyltingarkennd og Kristinn Steinar og aðrir vilja meina. Raðreitatækni getur nýst í hvers kyns samskiptum þar sem þörf er á traustum og áreiðanlegum aðgerðum milli aðila. Þar á meðal eru starfsemi bókasafna, samningsgerð og nám.

Jason Griffey verið að skoða hvernig raðreitatæknin getur nýst bókasöfnum. Bókasöfn þurfa að geta haldið utan um útlán og vitað hver er með hvaða bækur hverju sinni. Til þessa hafa bókasöfn notað til þess lokaða gagnagrunna sem halda utan um gögn um bókaeign og útlánastarfsemi. Ókosturinn við þetta er að gögnin eru yfirleitt geymd miðlægt á hverju safni fyrir sig. Bókasafnsgestir, önnur bókasöfn og bókaútgefendur hafa því takmarkaðan aðgang að gögnum sem gætu nýst þeim eða eru þeim viðkomandi. Miðlæg gagnageymsla hefur líka í för með sér að ef eitthvað fer úrskeiðis á miðlæga gagnageymslusvæðinu getur það haft alvarlegar afleiðingar, t.d. ef gögn eyðast eða þeim breytt á óvart eða af óprúttnum aðila. Raðreitatæknin kemur í veg fyrir þetta með því að vista gögn í skýinu til að auðvelda aðgengi og með notkun öflugrar dulkóðunar sem tryggir gagnaöryggi.

Hvernig ferilskrár gætu mögulega litið út með raðreitatækni.

En hvernig gæti raðreitatækni nýst í tengslum við nám og skólastarf? Sumir, eins og Sony, eru byrjaðir að velta því fyrir sér. Skýrasta dæmið um mögulega gagnsemi raðreitatækni í tengslum við nám er skráning og vistun námsferilsskráa. Eins og hugsað er um námsferil í dag eru mestar líkur á að námsferilsskrá innihaldi gögn frá fjölda aðila, t.d. skóla, námskeiðshaldara, vinnuveitenda og fleiri. Oft er heildar námsferilsskrá með upplýsingum frá öllum þessum aðilum samansett af misáreiðanlegum gögnum sem er safnað af viðkomandi einstaklingi sjálfum og afhend þeim sem þurfa. Þá er fátt sem kemur í veg fyrir að gögn séu skráð rangt eða jafnvel að viðkomandi skáldi gögn. Þá þarf sá sem tekur á móti námsferilsskránni að leggja mikið á sig til að staðfesta áreiðanleika gagnanna: að hafa samband við skóla eða námskeiðshaldara og þess háttar. Með raðreitatækni væri námsferill viðkomandi skráður með öruggri samskiptaaðgerð (transaction) milli námsmanns og fræðsluaðila í hvert sinn sem námi er lokið:

  1. nemandi lætur fræðsluaðila hafa einkennislykil,
  2. fræðsluaðili notar eigin einkennislykil til að stofna til aðgerðar,
  3. námsgögn eru skráð á nafni nemanda með rekjanlegum upplýsingum um aðila sem komu að aðgerðinni, þar með talið fræðsluaðila,
  4. raðreitatæknin sér til þess að gögn eru varðveitt í skýinu,
  5. nemandi gefur vinnuveitanda lykil sem veitir aðgang að námsgögnum hans,
  6. vinnuveitandi sér öll gögn, hverjir voru aðilar að hverri aðgerð, hvenær gögnin voru skráð og breytingarsögu ef einhver er, og annað sem fylgir skráningunni.

Þannig er tryggt að þau gögn sem birtast í námsferilsskránni eru rétt skráð og koma frá viðeigandi aðila – og hægt er að sjá nákvæmlega hver sá aðili er.

Það má vel hugsað sér fjölda annarra notkunarmöguleika raðreitatækni í námi og skólastarfi, t.d. við skil á verkefnum á rafrænu formi og fleira. Hvað sem hverjum dettur í hug er mikill áhugi á möguleikum þessarar tækni sterk vísbending um að hún muni hafa töluverð áhrif á ýmiss svið mannlegra samskipta á komandi árum og auka til muna áreiðanleika og gagnsæi í slíkum samskiptum.

Skrifaðu athugasemd