Home / Menntamidja / Ný skýrsla um framtíðarmiðaða menntastefnu í ýmsum löndum

Ný skýrsla um framtíðarmiðaða menntastefnu í ýmsum löndum

image_pdfimage_print

Nýlega kom út skýrsla um hæfni skólakerfa til að mæta þörfum framtíðarinnar. Skýrslan heitir The Worldwide Educating for the Future Index: Building tomorrow’s global citizens, og er unnin af The Economist Intelligence Unit fyrir The Yidan Prize, sem er styrktarsjóður stofnaður af kínverjanum, Dr. Charles Chen Yidan. Eins og í svo mörgu sem tengist skólaþróun eru það Finnar sem koma bestir út, en fast á hælum þeirra er lönd eins og Nýja Sjáland, Kanada og Singapúr, sem einnig hafa komið vel út í öðrum alþjóðlegum samanburðarrannsóknum.

Þetta er í annað sinn sem gefin er út skýrsla af þessu tagi. Sú fyrsta kom út 2017 og lagði grunninn að samanburðarhæfri vísitölu sem er ætlað að mæla hæfni skólakerfa til að mæta þörfum framtíðarinnar. Í þessari nýju skýrslu er farið yfir ýmsar breytingar sem hafa verið gerðar á vísitölunni. Meðal annars hafa bæst við 5 ný viðmið, sem hafa mest með stefnumótun og kennsluumhverfi að gera. Einnig hafa verið gerðar nokkrar breytingar á eldri viðmiðum. t.d. til að auka vægi alþjóðavæðingar í menntun.

Eins og áður segir, koma Finnar best út í þessari úttekt. Það sem hefur hvað mest að segja þar er hversu framtíðarmiðað stefnumótunarumhverfi þeirra er. Finnar hafa lengi safnað kerfsibundið gögnum um framtíðarhæfniþarfir samfélagsins, sem þeir svo nýta í mótun menntastefnu. Einnig er stefnumótunarumhverfi þeirra mjög sveigjanlegt og gefur því færi á að bregðast fljótt við breyttum aðstæðum og þörfum, en endurskoðun og uppfærsla á stefnuyfirlýsingum, námskrám og öðrum stefnumótandi tólum fer fram að jafnaði árlega.

Skýrslan lýsir áhugaverðu þróunarstarfi, sem við gætum nýtt okkur í stefnumótun hér á landi til að auka getu okkar til að takast á við langtíma áskoranir sem tengjast menntun. Hins vegar er ýsmislegt sem má gagnrýna varðandi viðmiðin og vísitöluna almennt. Það er ekki lítið mál að búa til viðmið og vísitölur sem gefa raunverulega samanburðarhæfar upplýsingar um skólamál í ólíkum löndum. Til dæmis vakti það mína athygli að á þeim eina stað þar sem Íslandi er nefnt (en Ísland var ekki formlega með í verkefninu) er fjallað um kennslu í erlendum tungumálum á framhaldsskólastigi í mismunandi löndum. Ísland er þar mjög neðarlega í samanburði við önnur lönd og sagt að aðeins um 63% af íslenskum framhaldsskólanemum læri tvö erlend tungumál eða fleiri. Sú tala þykir mér mjög ólíkleg þar sem langflestir framhaldsskólanemar eru skyldaðir til að læra minnst tvö erlend tungumál, ef ekki þrjú. Sá grunur læðist að mér að hér sé verið að nota gögn sem Hagstofa Íslands hefur safnað, en þau lýsa hversu margir framhaldsskólanemar eru skráðir í áfanga í erlendum tungumálum hverju sinni, ekki hversu margir læra tungumál á námsferlinu (ef ég er að lesa þetta rétt).

Þrátt fyrir ýmsar jákvæðar breytingar á viðmiðum og aðferðum í 2018 útgáfunni má gera nokkrar athugasemdir, sem vonandi verður tekið tillit til í næstu uppfærslu. Til dæmis virðist lítið horft til þess hvernig, jafnvel hvort, stefnumótendur eru að huga að þekktum óvissuþáttum eins og möguleg áhrif sem aukin notkun gervigreindar, sýndarveruleika og gagnaukins veruleika munu hafa á félagslegan og tæknilegan veruleika sem ungt fólk mun upplifa í framtíðinni. Einnig mætti taka tillit til tímasetninga sem stefnumótendur miða við í sínum framtíðarpælingum – er verið að horfa til 5 ára (sem telst varla framtíð í framtíðarfræðum), 15 ára (ca. tíminn sem nemendur eru í skólakerfinu), 25 ára (tíminn þangað til að gera má ráð fyrir börn sem eru núna að hefja nám fari að taka við stjórnartaumum í samfélaginu). Enn eitt sem ég held að mætti huga að í þessu verkefni er hversu miklir þátttakendur tiltekin lönd eru í mótun nýrrar tækni. Til dæmis lenda Bandaríkin nokkuð neðarlega í heildarmatinu, en þá er ekki horft til þess forskots sem þeir hafa á öðrum varðandi aðgengi að nýjustu tækni. Við sjáum bersýnilega merki þess í dag að þetta skiptir í máli, eins og með útbreiðslu gervigreindar (t.d. Google Assistant, Alexa o.fl.) sem er háð tungutækni og netvæðingu ýmissar þjónustu sem verður að miklu leyti svæðisbundin. Sú gervigreind sem er á markaði í dag og hægt er að kaupa í Elkó hjá okkur getur gert mun minna fyrir okkur en sömu vörurnar í Bandaríkjunum af þessum ástæðum. Sýnir sannleikann í orðum vísindaskáldsöguhöfundarins William Gibson, sem hefur sagt, „The future is already here – it’s just not evenly distributed.“

En þetta er verk í mótun og mjög áhugavert sem slíkt. Vissulega eru veikleikar en einnig getur þetta orðið mjög gagnlegt. Sérstaklega má nota þau gögn sem birtast í skýrslunni til að beina sjónum okkar að þeim svæðum þar sem verið er að gera góða hluti í tengslum við stefnumótun. En það er ekki nóg að vita bara hvar er verið að gera goða hluti, við þurfum líka að líta svolítið undir yfirborðið og skoða vel hvað felst í þessum góðu hlutum og hvað gæti hentað okkur.

Skrifaðu athugasemd