Home / Menntamidja / Gervigreindarþjónar og nám

Gervigreindarþjónar og nám

image_pdfimage_print

Nýlegur þáttúr í þáttaröðinni vinsælu South Park gerði óspart grín að gervigreindarþjóna-æðinu.

Það hefur varla farið framhjá nokkrum sem fylgist almennt með tækniþróun að tími gervigreindarþjóna er kominn. Á undanförnum árum hafa Amazon Echo (kom út 2014) og Google Home Assistant (kom út 2016), rokselst erlendis og þróun tækninnar sem þau byggja á fleygt áfram. Gervigreindarþjónar þessir eru í raun einskonar viðmót við öflugan netbúnað sem skilur mælt mál og getur svarað spurningum, veitt upplýsingar og stýrt nettengdum heimilisbúnaði. Fyrstu tækin voru seld á um kr. 15-20 þúsund en Amazon hóf að selja smækkaða útgáfu á um kr. 5.000 fyrr á þessu ári og Google tilkynnti svipað tæki á sambærilegu verði í dag (4. okt. 2017). En hvað felst í þessari tækniþróun og hvaða áhrif hefur það á nám og kennslu, og þá sér í lagi fyrir Ísland?

Eins og er er tungumálakunnátta þessara tækja mjög takmörkuð. Amazon Echo skilur og talar aðeins ensku og þýsku en Google Home Assistant ræður við þýsku, ensku, frönsku og japönsku. Fleiri tungumál munu bætast við á næstu árum en óvíst er hvenær þessi tæki nái vald á íslenskri tungu. Því miður hefur þróun íslenskrar tungutækni ekki haldist í við tækniþróun undanfarin ár. Til marks um það er að gervigreindarbúnaður og talviðmót Google sem fylgt hefur öllum Android símum síðan 2012, fyrst sem Google Now og nú í endurbættri útgáfu sem Google Assistant, ræður enn lítið við íslenskuna.

Google Home þykir einstaklega snjallt tæki sem getur einfaldað upplýsingaleit, stýringu heimilistækja og margt fleira.

Þrátt fyrir að Google skuli enn ekki styðja íslensku nema að mjög takmörkuðu leyti er ljóst að gervigreindarþjónar verða mikilvægur þáttur í tækniflóru okkar í framtíðinni. Eflaust eru fjölmargir íslendingar sem sætta sig við að nota ensku meðan ekki er kostur á að tala íslensku við tækin og flýta þannig fyrir innleiðingu tækninnar hér á landi.

En hvað gera svo þessi tæki? Ég svara eins og ég var vanur að gera þegar ég vann við hugbúnaðargerð og fékk álíka spurningar: ef þér getur dottið það í hug getur tækið líklega gert það – bara spurning hvernig. Upp úr kassanum geta tækin meðal annars:

  • svarað misflóknum spurningum með því að lesa upp niðurstöður leita á netinu,
  • leyst stærðfræðidæmi,
  • umbreytt úr einni mælieiningu í aðra,
  • spilað tónlist eftir beiðni af netþjónustum eins og Spotify,Tune-in útvarp og fleiri,
  • lesið upp upplýsingar sem eru skráðar hjá tengdum þjónustum eins og skráða viðburði í Google dagatali,
  • gefið leiðbeiningar til að komast á staði (þegar Strætó gögn eru komin á Google Maps e.o. lofað hefur verið að gerist bráðum verður hægt að fá upplýsingar um strætóferðir),
  • lesið upp veðurspá,
  • stýrt snjöllum heimilistækjum eins og snjallljós, snjallsjónvarp, snjallofn, snjallryksugur og fleira.

Einnig er hægt að kenna tækjunum nýjar skipanir með nettólum eins og If This Then That (IFTTT) og . Með Amazon Echo er líka hægt að forrita nýja hæfni, eða svo kölluð „skills“, sem tækið skilur þá sem nýjar skipanir. Það er eins og ég segi, ef þér getur dottið það í hug er líklega hægt að finna leið til að láta tækið gera það.

Amazon Echo með persónuleikanum „Alexa“ var einn fyrsti gervigreindarþjónninn sem kom á markað og hefur náð mikilli útbreiðslu.

Ljóst er að tækni sem þessi muni hafa gríðarleg áhrif á nám. Nemendur þurfa ekki lengur að leita að svörum við einföldum spurningum í bókum. Þeir þurfa ekki einu sinni að slá inn leit í leitarvél á vefnum. Nú geta þeir einfaldlega varpað spurningu út í loftið og fengið greinargóð svör. Þá er spurningin fyrir okkur sem starfa við menntun: hvað gerum við þegar tækni sem þessi hefur náð útbreiðslu?

Þeir framsæknustu meðal skólafólks eru þegar byrjaðir að velta fyrir sér möguleikum þessarar tækni í tengslum við nám og kennslu og sumir viljugir til að deila reynslunni (sjá tengla fyrir neðan). En hvernig verður þetta hér á landi? Bíðum við eftir íslenskunni eða er ráðlegt að byrja sem fyrst og nota bara erlendu tungumálin? Hvað væri hægt að gera með tækni sem þessa í skólastofum íslenskra skóla?

Kennari varpar fram spurningu um notkun Google Assistant í tengslum við samskipti við heimilið.

Sarah FitzHenry deilir reynslu sinni af því að nota Google Home í skólabókasafni.

Dr. Bruce Ellis er með margar hugmyndir um hvernig Amazon Alexa getur nýst í skólastarfi.

 

Skrifaðu athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.