Að vinna úr framtíðinni: Gagnlegar sviðsmyndir um framtíð skólastarfs
Hér er komin áhugaverð grein um mögulegar framtíðir skólastarfs:
Snijders, D., van der Duin, P., Marchau, V., & van Doorn, G. J. (2018). Scenarios for ICT-related Education: A Qualitative Meta-analysis. Journal of Futures Studies, 23(2), 13-28.
Höfundar greina frá helstu sveiflum í upplýsingatækni sem sérfræðingar telja fyrirsjáanlegar og settar fram lýsingar á þeim áhrifum sem þær geti mögulega haft á skólastarf. Við sjáum allt of sjaldan fræðigreinar af þessu tagi. Of oft er látið nægja að lista og lýsa tækniþróun framtíðar og gert ráð fyrir að viðkomandi setji hana í samhengi við sitt starfsumhverfi. En að vinna úr framtíðarhorfum er flókið viðfangsefni sem krefst aðferðafræðilegrar þekkingar sem ekki allir búa yfir.
Hér hafa höfundar unnið úr töluverðu magni af gögnum og setja fram fjórar sviðsmyndir um hvernig þeir telja að skólastarf geti þróast miðað við fyrirsjáanlega tækniþróun. Sviðsmyndirnar eru ekki gallalausar en til þess eru þær gerðar – að opna fyrir umræðu um hvaða framtíð við viljum og hvað við þurfum að gera til að láta hana verða að veruleika.